Hætta á að ESB klofni í tvennt

Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins ræðir hér við David …
Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins ræðir hér við David Cameron forsætisráðherra Bretlands Reuters

Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir að krafa Breta um að Bretland fái undanþágu frá fyrirhuguðum reglum um fjármálaþjónustu ógni stöðu Evrópusambandsins og hætta sé á að sambandið klofni í tvennt.

Þetta kom fram í máli Barrosos á Evrópuþinginu í dag þar sem rætt var um leiðtogafund ESB-ríkjanna í Brussel í síðustu viku. Þar samþykktu 26 af 27 ríkjum ESB að gera nýjan samning um skatta- og fjármál eftir að Bretar höfnuðu því að sáttmálum sambandsins yrði breytt. Ætla ríkin að gera milliríkjasamning um hertar reglur um útgjöld og fjárlagahalla með ákvæðum um sjálfkrafa refsingar fyrir að brjóta reglurnar.

Barroso fór ekki nákvæmlega ofan í saumana á því hvað David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, setti fyrir sig á fundinum þrátt fyrir að vitað sé að skattur á fjármagnsflutninga sé meðal þess sem hann gat ekki sætt sig við.

Cameron varði ákvörðun sína í breska þinginu í gær og sagðist ekki hafa átt annars úrkostar en beita neitunarvaldi gegn breytingum á Lissabon-sáttmálanum. Hagsmunir Breta hefðu verið í húfi, þeir hefðu misst of mikið vald úr landi til Brussel. „Ég fór til Brussel með eitt markmið í huga – að vernda þjóðarhagsmuni Breta. Og það gerði ég,“ sagði ráðherrann.

Íhaldsmenn hans hylltu hann en þingmenn Verkamannaflokksins gerðu hróp að ráðherranum og varð þingforseti margsinnis að biðja menn að gæta stillingar. Kannanir gefa til kynna að mikill meirihluti Breta styðji afstöðu forsætisráðherrans.

Cameron segir að áætlun sem 26 leiðtogar af 27 samþykktu, um hert eftirlit embættismanna í Brussel með fjárlögum og fleiri aðgerðir sem eiga að leysa skuldavanda ríkja evrusvæðisins myndu ógna stöðu Lundúna sem einnar helstu fjármálamiðstöðvar heims. Bretar gætu því ekki tekið þátt í þessum aðgerðum. Andstæðingar ráðherrans saka hann um að hafa gert reginskyssu og útilokað Breta frá öllum áhrifum í ESB, einangrað þá. Hann ýki auk þess mjög þau áhrif sem þátttaka myndi hafa á stöðu Lundúna.

Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra og leiðtogi Frjálslyndra demókrata, gagnrýndi mjög afstöðu Camerons í Brussel. En hann taldi jafnframt að Frakkar og Þjóðverjar hefðu stillt honum upp við vegg, ekki sýnt neinn sveigjanleika.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sagði í gær að raunveruleikinn væri sá að Evrópusambandið væri tvíklofið eftir að Bretar beittu neitunarvaldi sínu á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert