Nakinn lögreglumaður í ofsaakstri

Breskir lögreglumenn að störfum.
Breskir lögreglumenn að störfum. Reuters

Fyrrverandi lögreglumaður í Bretlandi var í dag dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir ofsaakstur, en hann var nakinn undir stýri og stakk af á ofsahraða þegar lögregla ætlaði að stöðva hann. Skýringin var sú að honum fannst of vandræðalegt að fyrrverandi vinnufélagar sæju hann nakinn.

Lögreglumaðurinn, Andy Easterby, útskýrði fyrir dómi að hann hefði lagt á flótta vegna þess að hann gat ekki afborið tilhugsunina um að lögreglan stöðvaði hann á meðan hann var nakinn undir stýri. Hann var á endanum handtekinn í felum bak við ruslafötu, íklæddur engu öðru en skóm og sokkum.

Forsaga málsins var sú að Easterby fór á ströndina með kærustunni sinni og lá svo ljómandi vel á þeim að þau ákváðu að njóta ásta í bílnum á heimleiðinni. Lögregla fékk í kjölfarið tilkynningu um að í öryggismyndavél í bænum Scarborough hefði sést til nakins ökumanns. Þegar hún gerði sig líklega til að stöðva hann varð Easterby skelfingu lostinn og stakk af. Hann ók tvisvar í gegnum vegtálma og slökkti á framljósunum í von um að sleppa.

Hann mun þurfa að sitja inni í sex mánuði fyrir athæfið og var auk þess sviptur ökuréttindum í þrjú ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert