Kúbustjórn opnar bílamarkaðinn

Áratugagömul bifreið í höfuðborginni, Havana.
Áratugagömul bifreið í höfuðborginni, Havana. Reuters

Kúbustjórn hefur aflétt ríflega hálfrar aldar banni við frjálsri sölu og kaupum á bílum. Banninu var komið á árið 1959 og þurfti ýmist að koma til samþykki stjórnvalda eða sala á svarta markaðnum til að höndla mætti með ökutæki í landinu.

Bannið hefur meðal annars haft þá birtingarmynd að höfuðborgin, Havana, lítur út fyrir að þar sé haldið ársþing fornbílaklúbba allt árið um kring.

Þannig eru bifreiðar frá fimmta og sjötta áratugnum algengar á götum borgarinnar og endast margar vel í mildu loftslagi Karíbahafseyjarinnar.

Þrátt fyrir að banninu hafi verið aflétt verða engu að síður takmarkanir á innflutningi bifreiða til landsins í anda sósíalískrar miðstýringar.

Tilslakanirnar eru hluti af um 300 umbótum á hinu sósíalíska kerfi sem Raul Castro, bróðir byltingarleiðtogans Fidels, hyggst koma á.

Var hin frjálsa sala leyfð í október og hafa um 300 manns staðið í röð dag hvern að meðaltali til að skrá ökutæki eða leita að góðu kauptækifæri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert