Lögreglan í Tælandi sagðist í dag hafa frelsað 41 konu frá Laos, en þær höfðu verið þvingaðar til að stunda vændi í ferðamannabænum Sungai Golok nærri landamærum Tælands við Malasíu. 45 ára gamall karaokebareigandi var handtekinn og hefur verið kærður fyrir mansal og fyrir að halda ólögráða einstaklingum undir 18 ára aldri í gíslingu.
Upp komst um mansalið eftir vísbendingu frá ættingja einnar kvennanna, en hún náði að sögn lögreglu að hringja í foreldra sína og biðja um hjálp. Við húsleit fann lögregla 41 konu á aldrinum 16 til 23 ára. Konurnar sögðu að þeim hefði verið lofað vinnu sem þjónustustúlkur á háum launum, en við komuna til Tælands voru vegabréfin tekin af þeim og þær þvingaðar í vændi. Konurnar dvelja nú í búðum tælenska hersins á meðan málareksturinn stendur. Fórnarlömb mansals í Tælandi eru yfirleitt send aftur til upprunalands síns og ekki sótt til saka fyrir vændi.
Tæland er talið vera suðupottur mansals í heiminum þar sem minnihlutaþjóðarbrot og konur frá nágrannalöndunum Laos, Kambódíu og Burma eru taldar í sérstakri hættu.