Time Magazine hefur útnefnt „mótmælandann" um allan heim sem mann ársins 2011. Valið er m.a. rökstutt með þeim miklu breytingum sem náðst hafi fram á árinu með götumótmælum í borgum allt frá Arabaheiminum til New York.
„Mótmæli smituðust um allan heim á árinu," sagði Richard Stengel, ritstjóri Time Magazine þegar hann útskýrði valið í dag. „Þetta er fólk sem hefur nú þegar breytt sögunni og mun breyta sögunni til framtíðar."
Á forsíðu tölublaðsins er mynd af kvenkyns, slæðuklæddum mótmælanda í Arabaheiminum og fer það í sölu á föstudag. Á vefsíðu tímaritsins í dag eru birtar myndir og persónulegar frásagnir af mótmælendum um allan heim.
Þeir sem næstir komu til greina sem maður ársins að mati Time Magazine voru William McCraven, yfirmaður aðgerðar Bandaríkjahers sem leiddi til þess að Osama bin Laden var drepinn, kínverski listamaðurinn Ai Weiwei, bandaríski stjórnmálamaðurinn Paul Ryan og breska krónprinessan, Kate Middleton.