Dmítrí Medvedev, forseti Rússlands, hefur gefið út að Rússar séu tilbúnir að fjárfesta í Evrópu og leggja þannig sitt af mörkum til viðreisnar álfunnar í skuldakreppunni.
Ummælin koma í kjölfar yfirlýsingar Arkadís Dvorkovich, ráðgjafa rússneskra stjórnvalda í efnahagsmálum, um að rússnesk stjórnvöld væru tilbúin til að leggja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til 20 milljarða dala svo sjóðurinn verði betur í stakk búinn til að leggja skuldsettum evruríkjum hjálparhönd.
Yfirlýsingar Rússa í þessa veru koma á athyglisverðum tíma með hliðsjón af þeirri gagnrýni sem beinst hefur að yfirvöldum í Rússlandi vegna framkvæmda þingkosninganna þar fyrr í mánuðinum. Sú gagnrýni hefur sett blett á ímynd Rússlands. Á móti kemur að þarlend stjórnvöld njóta góðs af tekjum af sölu á olíu og gasi á erlenda markaði og geta nýtt þær tekjur til að styrkja pólitísk ítök sín á alþjóðavettvangi.
Kveðst Medvedev vilja tryggja að Evrópusambandið haldi stöðu sinni sem öflugt bandalag í stjórnmálum og efnahagsmálum.
Þá segir forsetinn að 41% af erlendum gjaldeyrisforða Rússlands sé bundið í evrum og að um helmingur útflutnings fari til ríkja Evrópusambandsins.