Tugir milljónir bandaríkjadala, eða sem svarar milljörðum króna, renna ár hvert til Roberts Mugabe, forseta Simbabve, og meðreiðarsveina hans í gegnum demandavinnslu í landinu. Andstæðingar forsetans óttast að hann muni nýta sér auðæfin til að framlengja tök sín á valdataumunum.
Fjallað er um málið á vef New York Times og er stuðst við heimildir frá eftirlitsaðilum, diplómötum, þingmönnum og sérfræðingum um málefni Afríkuríkisins.
Er meðal annars vitnað til þess að 60 milljónir dala, vel á áttunda milljarð króna, hafi vantað í ríkissjóð landsins af áætluðum tekjum af demantavinnslu.
Rætt er við Mike Davis, sérfræðing hjá samtökunum Global Witness, sem fullyrðir að arðurinnn af sölu demanta renni fyrst og fremst til bandamanna forsetans.
En samtökin byggja þetta meðal annars á rannsóknum á demantavinnslu í austurhluta landsins.
Heldur valdataflinu gangandi
Bandaríska blaðið rifjar upp að eftir að Mugabe þurfti að deila völdunum í kjölfar andófs á árinu 2008 hafi hann ekki lengur tök á fjármálaráðuneytinu.
Því þurfi forsetinn að leita allra leiða til að fjármagna valdatafl sitt með þessari birtingarmynd.
Gróði af demantasölu sé nú nýttur til að undirbúa snemmbærar þingkosningar í landinu á næsta ári.