Hættuástand á suðurskauti

Enn ríkir hættuástand þar sem rússneskur togari strandaði við Suðurskautslandið fyrir tveimur dögum. Gat kom á síðu skipsins þegar það lenti á ísjaka og ljóst er að björgunarskip komast ekki á svæðið fyrr en eftir nokkra daga.

32 manna áhöfn er um borð í togaranum, sem nefnist Sparta. Áhöfninni tókst í gær að stöðva leka, sem kom að skipinu. Í nótt fór sjór að flæða á ný inn í lestar skipsins en áhöfninni tókst  að stöðva lekann á ný.

Skipið er um 3700 km suðaustur af Nýja-Sjálandi. Nýsjálenski flugherinn sendi nú síðdegis Hercules flutningavél á svæðið og tókst henni að varpa eldsneyti og dælum til áhafnar rússneska togarans.

Rússarnir höfðust í nótt við í björgunarbátum en aðstæður eru erfiðar vegna kulda. Tvö björgunarskip eru á leið á strandstaðinn en siglingaleiðin er varhugaverð og búist er við að siglingin muni taka nokkra daga. Þá lagði suður-kóreskur ísbrjótur, Araon, sem var í höfn í Nýja-Sjálandi, af stað áleiðis til rússneska skipsins í kvöld. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert