Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, sagði í dag að hann hefði tjáð Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, að ríkisstjórn Rússlands hefði engar áhyggjur af gagnrýni Bandaríkjastjórnar á rússnesku þingkosningarnar sem fram fóru fyrr í þessum mánuði.
„Auðvitað, þurfti ég að segja eitt við hann: Þú mátt halda hvað sem þú vilt um kosningarnar okkar, en þetta er okkar mál. Satt best að segja, skiptir álit þitt okkur engu máli,“ sagði Medvedev um símtal sem hann átti við Obama í gær. Medvedev tjáði rússnesku fréttastöðinni Interfax að hann hefði einnig sagt við Obama að Rússland væri „stórt, sterkt og fullvalda ríki.“
Talsmenn Hvíta Hússins segja að Obama hafi hrósað Medvedev fyrir staðfestu sína í því að rannsaka ásakanir um ágalla á þingkosningunum sem fram fóru 4. desember síðastliðinn. Sigurvegari kosninganna var flokkurinn Sameinað Rússland, en leiðtogi hans er Vladimir Putin, forsætisráðherra Rússlands.
Samtalið á milli leiðtoganna tveggja fylgir í kjölfar gagnrýni Putin á Bandaríkjastjórn, en miklar líkur eru taldar á því að hann taki aftur við sínu gamla starfi sem forseti Rússlands eftir forsetakosningarnar sem fram fara í mars á næsta ári.
Í síðustu viku ásakaði Putin Bandaríkjastjórn um að hvetja til mótmæla gegn kosningasvindli, en þær ásakanir fylgdu í kjölfar yfirlýsinga af hálfu Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þess efnis að hún efaðist um sanngirni kosninganna.