Schäuble óánægður með niðurstöðu leiðtogafundar

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands.
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands. Reuters

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, lýsti því yfir í dag að hann væri óánægður með niðurstöðu leiðtogafundar Evrópusambandsins þar sem Bretar neituðu að taka þátt með evruríkjunum í nýjum sáttmála um ríkisfjármál.

„Ég hafði verið bjartsýnn á að við myndum ná fram breytingu á stofnsáttmálum Evrópusambandsins. Því miður, þá tókst það ekki,“ sagði Schäuble í viðtali við þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung í dag. „Þetta hefði verið betri lausn. Eins og hlutirnir eru núna, þá eru framkvæmdin og samskipti mun erfiðari,“ bætti Schäuble við.

Að sögn Schäubles hafði hann vonað að fundurinn myndi senda „skýr og einföld skilaboð til markaðarins.“

Leiðtogar 26 af 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins samþykktu í síðustu viku, eftir mikilvægan leiðtogafund í Brussel, að styðja við hugmyndir Frakka og Þjóðverja um aukið eftirlit með fjárlögum í þeim tilgangi að reyna að bjarga evrusvæðinu.

Eftir að Bretland, sem er ekki eitt af evruríkjunum, kom í veg fyrir breytingar á stofnsáttmálum ESB, gáfu hin 26 aðildarríkin til kynna að þau væru tilbúin til þess að taka þátt í nýjum samningi um ríkisfjármál sem myndi fela í sér strangari reglur um ríkisfjármál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert