Tyrkir vara Frakka við nýju frumvarpi

Tyrkenskir mótmælendur við mótmæli gegn frumvarpinu umdeilda fyrir utan franska …
Tyrkenskir mótmælendur við mótmæli gegn frumvarpinu umdeilda fyrir utan franska sendiráðið í Ankara í dag. Reuters

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, varaði í dag franska þingið við því að lögfesta nýtt frumvarp tengt þjóðarmorðum Tyrkja á Armenum. Erdogan varaði franska þingið við því að samskipti á milli landanna tveggja myndu versna ef frumvarpið hlyti samþykki meirihluta þingsins.

Frumvarpið, sem kosið verður um næsta fimmtudag, myndi gera það að verkum að refsivert yrði í Frakklandi að afneita þjóðarmorðum Ottómanveldisins á Armenum.

„Ég vona að franska þingið hafni þeirri vitleysu sem felst í því að refsa fólki fyrir að afneita sögufölsun,“ sagði Erdogan við blaðamenn í Istanbúl í dag. Hann bætti við að saga Frakkar ættu sjálfir blóðuga sögu sem nýlenduveldi.

„Tyrkland mun með diplómatískum aðferðum berjast gegn þessu ósanngjarna og ólöglega lýðskrumi,“ sagði Erdogan sem benti jafnframt á að hann teldi að frumvarpið væri einungis ætlað til heimabrúks fyrir frönsku forsetakosningarnar sem fara fram á næsta ári.

Erdogan hefur sent erindi til Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta, og óskað eftir því að Sarkozy stöðvi frumvarpi. Að sögn Erdogan munu samskipti ríkjanna verða fyrir alvarlegum og óafturkræfum skaða ef frumvarpið verður að lögum.

„Ef franskir þingmenn vilja minnast mannkynssögunnar, þá hvet ég þá til þess að upplýsa almenning um það sem gerðist í Alsír og Rúanda og hlutverk franskra hermanna í þeim atburðum,“ sagði Erdogan og bætti við „enginn sagnfræðingur, né stjórnmálamaður, vill sjá þjóðarmorð í sögu heimalands síns. Þeir sem vilja sjá þjóðarmorð ættu að byrja á að skoða sína eigin skítugu og blóðugu sögu.“

Ef frumvarpið verður að lögum þá þá mun hver sá sem afneitar þjóðarmorðum Tyrkja á Armenum horfa fram á eins árs fangelsi og sekt sem nemur 45 þúsund evrum, en það jafngildir rúmum 7 milljónum íslenskra króna.

Armenar halda því fram að um 1,5 milljón Armena hafi látið lífið í fyrri heimsstyrjöldinni vegna þjóðarmorða sem framin voru af forvera Tyrklands, Ottómanveldinu.

Tyrkir hafa ávallt hafnað öllum ásökunum um þjóðarmorð. Þeir halda því fram að um 300 þúsund til 500 þúsund Armenar, og a.m.k. jafn magrir Tyrkir, hafi látist í bardögum og úr hungri þegar að Armenar fóru í byltingu og tóku afstöðu með innrásarher Rússlands.

Flestir sagnfræðingar eru sammála um að á bilinu 500 þúsund til 1,5 milljón Armena hafi látið lífið í hrinu þjóðarmorða og brottvísana frá Litlu-Asíu af hálfu Ottómanveldisins á árunum 1915 til 1916.

Frakkland viðurkenndi opinberlega morðin sem þjóðarmorð árið 2001.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert