Ekki dró í dag úr átökum á milli öryggissveita hersins og lögreglunnar annars vegar og mótmælenda hinsvegar í Kaíró í Egyptalandi en þau hafa staðið yfir í þrjá daga. Verið er að mótmæla stjórn hersins, sem tók við eftir að Hosni Mubarak hrökklaðist frá völdum.
Í það minnsta tíu manns hafa látist og yfir 500 særst í átökunum síðan á föstudag og hefur sögulegt bókasafn, sem hýsti ómetanlega safngripi, eyðilagst. Tæplega 200 manns hafa verið handteknir.
Fjölmargir mótmælendur héldu á lofti dagblaði en á forsíðu þess var stór mynd sem sýndi meðlimi öryggissveitar hersins berja konu með kylfu eftir að hafa rifið föt hennar svo að það sást í brjóstahaldara hennar. Á myndinni, og einnig á youtube-myndbandi sem er til af atvikinu, sést konan liggja á jörðinni og hermenn með hjálma standa yfir henni. Einn þeirra sést sparka í hana og lítur hún út fyrir að vera meðvitundarlaus. Hún er með slæðu fyrir andlitinu en hinsvegar sést í maga hennar og brjóstahaldara.
Aðrar myndir, sem hefur verið dreift á samskiptasíðum og hafa reitt mótmælendur til reiði, sýna t.a.m. Hermann standa með barefli í hendi yfir grátandi eldri konu. Þá ganga milli manna myndbönd sem sýna hermenn ganga í skrokk á mótmælendum, konum jafnt sem körlum.