Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fordæmdi í dag þau mannréttindabrot sem hafa verið framin í Norður-Kóreu. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, hét því hins vegar að N-Kórea mundi áfram hljóta aðstoð alþjóðasamfélagsins í kjölfar andláts leiðtogans Kim Jong-Il.
Alls eiga 193 ríki í allsherjarþinginu 123 ríki samþykktu að fordæma mannréttindabrot í N-Kóreu en 16 ríki sögðu nei. 51 ríki sat hjá. Kína er á meðal þeirra ríkja sem greiddu atkvæði gegn ályktunni.
Fulltrúi frá Norður-Kóreu var viðstaddur atkvæðagreiðsluna og vísaði hann ásökunum á bug.
Í ályktuninni kemur fram að SÞ hafi gríðarlega miklar áhyggjur af pyntingum, opinberum aftökum, ómannúðlegum aðstæðum fanga í Norður-Kóreu, sem margir séu settir á bak við lás og slá án dóms og laga.
Þá fordæma SÞ að fjölmargar fangabúðir séu í landinu og vinnuþrælkun.
Fulltrúi N-Kóreu segir að það sé ekkert hæft í ásökunum um mannréttindabrot í heimalandi sínu. Hann segir að Vesturveldin reyni að gjörbylta hinu pólitíska og félagslega kerfi sem sé við lýði í Norður-Kóreu, með því að fá alþjóðasamfélagið til að setja aukinn þrýsting á landið.