Opinberir starfsmenn á Ítalíu, þeirra á meðal heilbrigðisstarfsfólk, hófu eins dags verkfall í dag til að mótmæla niðurskurðaráætlunum ríkisstjórnarinnar. Þrjú stærstu stéttarfélög Ítalíu boðuðu til verkfallsins.
Læknar og hjúkrunarfræðingar á ríkissjúkrahúsum sinna einungis neyðartilvikum, kennarar í grunn- og menntaskólum munu einungis kenna í síðustu kennslustund dagsins og háskólaprófessorar leggja alfarið niður störf í dag. Einnig verður starfsemi pósthúsa takmörkuð.
Mótmæli eru fyrirhuguð í nokkrum borgum víða um landið, þar á meðal í Róm og þar verður haldinn mótmælafundur fyrir framan þinghúsið. Fólkið krefst þess að launafólk verði ekki látið bera allar byrðarnar, heldur verði sjónum beint að skattsvikurum og þeim efnameiri.
Mario Monti, forsætisráðherra landsins, segir lítið svigrúm til að bregðast við kröfunum. Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar verður að öllum líkindum samþykkt fyrir jól, en hún felur í sér víðtækar aðgerðir sem meðal annars felast í endurupptöku eignarskatts og breytingum á lífeyrisréttindum.