Varað er á bandarískum fréttavef við hnattrænum afleiðingum þess að Katla kunni að gjósa og eru þar leiddar líkur að því að slíkar hamfarir geti leitt til kólnandi veðurfars á jörðinni.
Sagt er frá hættunni á Kötlugosi á fréttavef dagblaðsins Coeur d'Alene Press í Coeur d'Alene í Idaho og er umfjöllunin í tveim hlutum.
Í þeim fyrri segir að mannkynið kunni að vera að sigla inn í skeið aukinnar eldvirkni og að afleiðingin geti meðal annars orðið sú að hitastig á jörðinni lækki.
Höfundur greinanna er veðurfræðingurinn Cliff Harris og lýkur fyrri grein hans á spurningunni „Gæti stórt eldgos á Íslandi leitt til skelfilegs „kjarnorkuveturs““?
Ekki verður ráðið af síðari grein Harris að hann svari þar spurningunni afdráttarlaust.
Þess í stað lætur hann nægja að benda á að meira en 800 jarðskjálftar hafi nýverið skekið jörð við Kötlurætur og að það bendi til að stórgos kunni að vera yfirvofandi.
Fyrr grein Harris má nálgast hér en þá síðari hér.