Mikil óvissa ríkir í Asíu eftir að tilkynnt var í nótt að Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreu, hefði látist af völdum hjartaáfalls í gær, 69 ára að aldri. Jafnframt var tilkynnt að Kim Jong-un, sonur hans, tæki við völdum.
Fjölmiðlar í Norður-Kóreu hafa í morgun sagt að „ólýsanleg sorg" ríki í landinu. Háttsettir embættismenn hafa komið í sjónvarpsviðtöl og hágrátið.
„Þeir reyna ekki einu sinni að þurrka tárin og þeir engjast af kvölum og örvæntingu," sagði opinbera fréttastofan KCNA.
Sjónvarpsmyndir, sem sýndar voru í Kína í morgun, sýna vegfarendur í höfuðborginni Pyongyang hágrátandi. „Hvernig get ég lýst sorg minni... Ég get ekki sagt meira," sagði hermaður um leið og hann brast í grát. „Hann reyndi að gera líf okkar betra og síðan yfirgaf hann okkur fyrirvaralaust," sagði Hong Sun-Ok.
Kim Jong-il stýrði kommúnistaríkinu Norður-Kóreu í rúm 17 ár en hann erfði völdin eftir föður sinn, Kim Il-sung, stofnanda ríkisins. Þótt miklar breytingar yrðu í heiminum á þessum tíma og kommúnistaríki féllu hvert af öðru tókst Kim að halda óskoruðum völdum þrátt fyrir hungursneyð og erfiða sambúð við nágrannaríki í Asíu. Honum tókst einnig að gera Norður-Kóreu að kjarnorkuríki, umheiminum til lítillar gleði.
Norður-Kóreumenn hafa sprengt kjarnorkusprengjur og byggt kjarnorkuver þrátt fyrir tilraunir annarra ríkja til að fá þá til að hætta við kjarnorkuáætlun sína. Í landinu er einn stærsti her heims með yfir eina milljón manna undir vopnum og Kim Jong-il var ekki spar á yfirlýsingar um að hann myndi beita vopnavaldi ef á þyrfi að halda.
Hin opinbera útgáfa í Norður-Kóreu er, að Kim hafi fæðst í febrúar árið 1942 á Paektu-fjalli, einum helgasta stað landsins. Þegar hann fæddist hafi himnarnir fagnað með því að mynda tvo regnboga og björt stjarna hafi skinið á himni og kólibrífuglar hafi sungið um „leiðarstjörnu".
En sovéskar heimildir herma, að Kim hafi fæðst í sovéskum herbúðum í Khabarovsk þaðan sem faðir hans stýrði baráttu fyrir sjálfstæði Norður-Kóreu gegn Japönum. Hann mun hafa átti erfiða æsku í Síberíu. Faðir hans fór illa með móður hans og þegar hún féll skyndilega frá kvæntist hann óðara aftur.
Kim Il-sung snéri aftur til Kóreu árið 1945 eftir að Japan beið ósigur í síðari heimsstyrjöldinni. Kóreuskaga var skipt milli stórveldanna. Sovétmenn réðu norðurhlutanum en Bandaríkjamenn suðurhlutanum. Kim varð fyrsti leiðtogi Norður-Kóreu árið 1948 en Syngman Rhee varð fyrsti forseti Suður-Kóreu.
Norður-Kóreumenn réðust inn í Suður-Kóreu árið 1950. Kóreustríðið stóð í þrjú ár og kostaði milljónir óbreyttra borgara lífið. Með vopnahléssamningum var Kóreuskaga skipt með hlutlausu belti þar sem hermenn beggja ríkja standa enn vörð en Kóreustríðinu lauk aldrei formlega.
Kim Jong-il nam við Mangyongdae-byltingarskólann, sem er eingöngu fyrir börn ráðamanna, og lauk síðar námi í pólitískri hagfræði við Kim Il-sung-háskólann. Heimildir eru um, að hann hafi verið við nám í stuttan tíma í Austur-Þýskalandi. Námsárin notaði hann að kóreskri siðvenju til að rækta vinskap við rétta menn, þá, sem nú eru í æðstu embættum og hans helstu bandamenn.
Þótt ekki væri mjög ástríkt með þeim feðgum varð snemma ljóst, að Kim Il-sung vildi, að sonur sinn tæki við af sér. Kim var opinberlega útnefndur eftirmaður föður síns 1980 og tók við völdum árið 1994 þegar Kim eldri lést.
Gríðarleg persónudýrkun einkenndi valdaferil Kim Il-sung og hún hélt áfram þegar sonur hans tók við völdum. Hann var ávallt nefndur hinn ástkæri leiðtogi og varla var gefin svo út bók, hvort sem hún var um blaðamennsku, verkfræði eða eitthvað annað, að þar væri ekki að finna leiðbeiningar frá leiðtoganum ástkæra.
Kim er sagður hafa haft áhuga á mörgu, þar á meðal körfubolta, bílum og erlendum kvikmyndum. Hann er einnig talinn hafa framleitt nokkrar norður-kóreskar kvikmyndir, flestar um sagnfræðileg efni með hugmyndafræðilegu ívafi.
Hann ferðaðist sjaldan til útlanda og þá aðeins með lest en hann var sagður afar flughræddur. Eitt sinn fór hann alla leið til Moskvu og fréttir bárust af því að hann hefði ekki sparað við sig í mat og drykk á leiðinni.
Rússneskur fyrrverandi sendimaður, Konstantin Pulikovskí, skrifaði bók um lestarferð Kims um Rússland í júlí og ágúst 2001. Pulikovskí fylgdi Kim í ferðinni og sagði að lest norður-kóreska leiðtogans hefði verið full af frönskum gæðavínum. Lifandi humar beið lestarinnar á áfangastöðum.
Japanskur kokkur, sem síðar sagðist hafa verið sérstakur sushi-matsveinn Kims í áratug, skrifaði að 10 þúsund flöskur hefðu verið í vínkjallara leiðtogans. Þá hefði Kim snætt hákarlauggasúpu í hverri viku.
Lífskjör almennings í Norður-Kóreu eru hins vegar allt önnur. Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna áætlaði í haust, að um fjórði hver af alls 24 milljónum íbúa Norður-Kóreu þyrfti á mataraðstoð að halda og þriðja hvert barn væri þjakað af viðvarandi næringarskorti. Yfir milljón manna féll í hungursneyð í Norður-Kóreu á tíunda áratugnum.
Þá hafa mannréttindasamtök áætlað, að yfir 200 þúsund pólitískir fangar séu í haldi í fangabúðum Norður-Kóreu, sem eru sex talsins. Stjórn landsins hefur þó ávallt neitað tilvist fangabúðanna.
Kim Jong-il er talinn hafa búið með fjórum konum og eignast þrjá syni og eina dóttur með tveimur þeirra. Elsti sonurinn heitir Kim Jong-nam. Lengi var talið að hann yrði arftakinn en hann var settur út af sakramentinu eftir að hann reyndi að komast til Japans á fölsuðu vegabréfi frá Dóminíska lýðveldinu árið 2001. Hann mun hafa ætlað að fara með fjölskylduna í Disneyland í Tókýó.
Í miðið er Kim Jong-chol. Faðir hans er sagður hafa talið að hann væri of veikburða til að taka við og því fékk yngsti sonurinn, Kim Jong-un, það hlutverk. Talið er að yngsti Kim sé tæplega þrítugur og líkist föður sínum í útliti, skoðunum og gildismati. Kim Jong-un lærði við alþjóðlega skólann í Bern í Sviss og er sagður halda upp á vestrænar poppstjörnur, hraðskreiða þýska bíla, körfubolta og leikarann Jean-Claude van Damme.
Heilsu Kims hrakaði mjög á síðustu árum. Talið er að hann hafi fengið heilablóðfall árið 2008 og í kjölfarið var sonur hans, Kim Jong-un, kynntur til sögunnar sem eftirmaður föður síns.
Kim eldri virtist hins vegar hafa náð sér vel eftir heilablóðfallið og síðast í sumar fór hann í heimsókn til Rússlands og átti fund með Dmitrí Medvedev, forseta Rússlands, í Síberíu.
Samkvæmt rússneskum fréttum snæddu leiðtogarnir saman kvöldverð og á matseðlinum var m.a. Kamtsjaka-krabbi með lárperu og límónu, pönnukökur með laxahrognum og omulfiskur með sólþurrkuðum tómötum og garðablóðbergi. Þessu var skolað niður með dýrum vínum, þar á meðal Chateau Giscours 2006 frá Margaux héraði í Bordeaux.
Kim fór í síðustu lestarferð sína um helgina, ef marka má fréttir norður-kóreskra fréttastofa. Þær sögðu, að leiðtoginn ástkæri hefði látist af völdum hjartaáfalls þegar hann var á ferð í járnbrautarlest.