Sýrlendingar svara í dag

Frá mótmælum í Sýrlandi.
Frá mótmælum í Sýrlandi. Reuters

Sýrlensk yfirvöld munu svara því til síðar í dag hvort þau munu samþykkja samkomulag um að eftirlitssveitum verði hleypt inn í landið til að fylgjast með því að endi verði bundinn á blóðbaðið sem staðið hefur yfir í níu mánuði.

Arababandalagið hefur pressað mjög á Sýrlendinga að gangast við þessu samkomulagi og undirritun mun fara fram í höfuðstöðvum þess í Kaíró í Egyptalandi.

Utanríkisráðherra Óman, Yussef bin Alawi, er vongóður um að Sýrlendingar gangi að samkomulaginu. „Við erum bjartsýn á að Sýrlendingar gangi að kröfum Arababandalagsins og undirriti samkomulagið á næstu 24 klukkustundum,“ sagði bin Alawi í morgun.

Sheikh Hamad bin Jassem Al-Thani, forsætisráðherra Katar, segist sömuleiðis þess fullviss að Sýrlendingar undirriti samkomulagið.

Arababandalagið, sem er bandalag 22 þjóða, hefur undanfarnar vikur reynt að telja sýrlensk stjórnvöld á að leyfa eftirlit í landinu. Bandalagið samþykkti refsiaðgerðir gegn Sýrlandi 27. nóvember og Sýrlendingar sögðu í byrjun desember að þeir samþykktu eftirlitið, en settu þá ýmis skilyrði fyrir því, meðal annars þau að refsiaðgerðum yrði aflétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert