Kínversk stjórnvöld hafa vottað íbúum Norður-Kóreu samúð sína í kjölfar andláts Kim Jong-Il. „Það er áfall að heyra að hinn mikli leiðtogi Kim Jong-Il sé fallinn frá og við vottum hér með samúð okkar og sendum einlægar kveðjur til þjóðarinnar.“
Þetta sagði talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Liu Weimin, í morgun.
Sérfræðingar hafa bent á að kínverskum ráðamönnum sé mjög umhugað um að halda stöðugleika á svæðinu og segja þá væntanlega hafa áhyggjur af því að syni leiðtogans, Kim Jong-Un, hafi ekki gefist nægur tími til þess að tryggja vald sitt yfir stjórn og heryfirvöldum landsins.
Fleiri en 21.700 íbúar Norður-Kóreu hafa flúið landið síðan í Kóreustríðinu, flestir síðastliðin ár. Þeir fara venjulega fótgangandi til Kína þaðan sem þeir ferðast til þriðja landsins en stjórnvöld í Pekíng eru sögð hafa áhyggjur af straumi flóttamanna, falli stjórnin í Norður-Kóreu.