Banaslys í vetrarfærð

Víða er vetrarlegt um að litast.
Víða er vetrarlegt um að litast. Reuters

Nokkur banaslys hafa orðið í Bandaríkjunum sem rekja má til óveðurs og snjókomu sem hefur gengið yfir miðríki landsins. Vetrarveðrið hefur raskað umferð á hraðbrautum í fimm ríkjum. Veðurfræðingar segja að víða á þessum svæðum verði erfitt eða jafnvel ómögulegt að komast leiðar sinnar fyrir jól.

AP-fréttastofan segir að mörg hótel við hraðbrautir séu nú að fyllast, eða allt frá Nýju-Mexíkó í austri til Kansas í vestri. Samgöngur liggja víða niðri vegna veðurs.

Í gærkvöldi bárust yfir 100 aðstoðarbeiðnir frá ökumönnum í norðurhluta Texas þar sem snjóbylur olli því að loka varð Interstate 40 hraðbrautinni, sem er mikilvæg samgönguæð milli austurs og vesturs.

Yfirvöld í Nýju-Mexíkó urðu að loka hluta Interstate 25 hraðbrautarinnar, sem liggur til norðausturs til Colorado. Lögreglan segir að síminn hafi ekki stoppað, en fjölmargir ökumenn lentu í vandræðum og festu bíla sína.

Mjög hafði snjóað í Kansas í morgun og nýfallinn snjór mældist 25 cm. Veðurfræðingar búast við enn meiri ofankomu.

Yfirvöld segja að rekja megi sex banaslys til færðarinnar. Fjórir létust þegar fólksbifreið rakst á pallbifreið í austurhluta Nýju-Mexíkó, þar sem snjóbyljir eru sjaldgæfir.

Þá lést fangavörður og fangi þegar fangaflutningabifreið valt á hálum vegi í austurhluta Colorado.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert