Stjörnur raunveruleikaþáttarins Sister Wives hyggjast láta reyna á lög í Utah-ríki í Bandaríkjunum sem banna fullorðnu fólki að búa saman og lifa kynlífi. Segja þau lögin ganga í berhögg við rétt fólks til einkalífs.
Brown-fjölskyldan samanstendur af Kody Brown, konunum hans fjórum og börnunum þeirra. Fjölskyldan tilheyrir Apostolic United Brethren-kirkjunni en meðlimir hennar stunda fjölkvæni, eins og trú þeirra boðar.
Herra Brown er þó aðeins giftur einni konunni þar sem fjölkvæni er ólöglegt í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Fjölskyldan hefur engu að síður verið sótt til saka en í Utah er ólöglegt að tveir fullorðnir ógiftir einstaklingar búi saman og stundi kynlíf.
Lögmaður Brown-fjölskyldunnar segir hins vegar lögin ganga í berhögg við dóma Hæstaréttar Bandaríkjanna, þar sem t.d. hafi verið úrskurðað að lög gegn samkynhneigð væru ólögmæt á þeim grundvelli að samlíf tveggja lögráða og samþykkra einstaklinga væri stjórnarskrárverndað.
Kody, Meri, Janelle, Christine, Robyn og börnin þeirra 17 vilji bara fá að vera í friði.
Frétt Huffington Post um málið