Eignaðist barn með eiganda næturklúbbs

Karima El Mahroug
Karima El Mahroug Reuters

Stúlkan Karima El Mahroug sem þekktust er fyrir að hafa tekið þátt í kynlífsveislum Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, áður en hún náði lögaldri, eignaðist nýverið barn. Faðir barnsins er eigandi næturklúbbs sem er miklu eldri en hún.

Karima El Mahroug, sem einnig er þekkt undir nafninu Ruby, var einungis sautján ára að aldri þegar Berlusconi á að hafa greitt henni fyrir kynlífsþjónustu. Á hann yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi fyrir glæp sinn ef hann verður fundinn sekur.

Eins á Berlusconi yfir höfði sér tólf ára fangelsi fyrir misbeitingu valds en hann á að hafa beitt lögreglu þrýstingi til að láta El Mahroug lausa úr haldi vegna ótengds máls.

El Mahroug er nítján ára gömul í dag en saksóknari sakar Berlusconi um að hafa greitt henni fyrir kynmök í nokkur skipti á tímabilinu febrúar til maí í fyrra. Réttarhöld standa enn yfir í málinu en fyrr í mánuðinum vitnaði lögregluþjónn um að El Mahroug væri vændiskona.

Berlusconi neitar sök og segist einungis hafa gefið El Mahroug peninga til að bjarga henni út úr fjárhagserfiðleikum þar sem hann taldi hana náskylda fyrrverandi forseta Egyptalands, Hosni Mubarak.

Samkvæmt fréttum ítalskra fjölmiðla í dag heilsast móður og barni vel en faðirinn, Luca Risso, sem er 42 ára, segir að hamingja hans sé meiri en orð fá lýst. Risso á og rekur tvo næturklúbba á Ítalíu og vann El Mahroug hjá honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert