Hætta á stjórnarkreppu í Írak

Tareq al-Hashemi, varaforseti Íraks.
Tareq al-Hashemi, varaforseti Íraks. Reuters

Varaforseti Íraks, Tareq al-Hashemi, hélt í dag blaðamannafund og sagðist myndu verjast ákæru vegna hryðjuverkastarfsemi. Hashemi er ákærður fyrir að hafa skipulagt og fjármagnað hryðjuverkaárásir í landinu, í samstarfi við lífverði sína.

Málið veldur nú erfiðu ástandi í stjórnmálum Íraks, örskömmu eftir að bandaríski herinn hafði sig þaðan á brott og bandarískir stjórnmálamenn, m.a. Barack Obama forseti og Leon Panetta varnarmálaráðherra, höfðu uppi  stór orð um góðan árangur af hersetunni þar.

Í gær var gefin út handtökuheimild á Hashemi, sem varð til þess að al-Iraqyia kosningabandalagið gaf það út að það myndi sniðganga ríkisstjórnarfundi, en það er stærsta framboð sem sæti á á þjóðþinginu og á aðild að þjóðstjórn landsins, með 82 af 325 þingsætum og níu ráðherrastöður. Bandalagið hefur þó ekki sagt sig úr ríkisstjórninni.

Vill fara fyrir dóm í Kúrdistan

Hashemi er leiðtogi eins af þeim flokkum sem mynda al-Iraqyia, m.a. ásamt flokki Iyads Allawis, fyrrverandi forsætisráðherra og flokki Saleh al-Mutlak, súnníta sem gegnir embætti varaforsætisráðherra. Hashemi og Mutlak eru súnnítar en Allawi er sjíti. Yfirlýst stefna al-Iraqyia er að vera veraldlegur stjórnmálaflokkur sem ekki markast af trúar- eða þjóðarbrotum.

Æðstu stjórnmálamenn landsins kalla nú eftir viðræðum til að reyna að leysa deilurnar án þess að hið brothætta stjórnarsamstarf leysist upp, en sjálfur sagði Hashemi á blaðamannafundinum að skjóta ætti máli hans til úrskurðar fyrir dómstóli í borginni Arbil í Kúrdistan í Norður-Írak. Þar væri hann reiðubúinn að leggja mál sitt fyrir dómstóla. Nuri al-Maliki forsætisráðherra hefur hafnað allri málamiðlun útlendinga í málinu, en vill að Írakar leysi deiluna sjálfir.

Undrandi á ummælum Obama

Hashemi hvatti ennfremur til þess að fulltrúar Arababandalagsins yrðu fengnir til að taka þátt í rannsókn málsins og yfirheyrslum, en hann sagði að meintar játningar lífvarða hans á þátttöku í brotum hans, sem sýndar hafa verið í sjónvarpi, væru falsaðar. Þar játa lífverðirnir að hafa skipulagt og framkvæmt hryðjuverk með aðstoð Hashemis. Honum var nýlega meinað að fara úr landi, en alls hafa þrettán lífverðir hans verið handteknir í tengslum við málið.

Á fundinum sagðist Hashemi undrandi á yfirlýsingum Baracks Obama um ástandið í Írak. „Ég er hissa á yfirlýsingum Bandaríkjaforseta, um að Írak sé orðið lýðræðislegt, og að það búi yfir sjálfstæðu dómskerfi.“

Skrifstofa varaforsetans Hashemis segir að aðeins þrír lífverðir hafi verið handteknir og kvartar yfir „viljandi áreitni“ stjórnvalda gegn honum, með vegatálmum öryggissveita fyrir utan heimili hans í margar vikur.

Vilja líka reka aðstoðarforsætisráðherrann

Maliki hefur kallað eftir því að aðstoðarforsætisráðherrann, fyrrnefndur al-Mutlak, verði rekinn eftir að hann sagði að Maliki væri „verri en Saddam Hussein“. Þingið mun taka fyrir tillögu Malikis um að reka Mutlak þann þriðja janúar næstkomandi. Nú þegar hafa þingforsetinn og héraðsforseti Kúrdistans stutt tillögu Malikis opinberlega.

Sagði þingforsetinn að írösk stjórnmál væru nú á úrslitastundu en héraðsstjórinn að djúp stjórnmálakreppa stæði fyrir dyrurm og varaði við því að ríkjandi stjórnarsamstarfi væri ógnað.

Nú um helgina rak al-Maliki einn undirmanna sinna sem kallaði ríkisstjórn hans harðstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka