Forstjóri kínversks fjárfestingarsjóðs sem hefur úr að spila hátt í 50.000 milljörðum króna, ríflegra 30-faldri þjóðarframleiðslu Íslands, segir mörg skuldsett Evrópuríki búa við uppsafnaðan vanda úr sér gengins velferðarkerfis.
Forstjórinn, Jin Liqun, lét þessa skoðun í ljós er hann var nýlega spurður að því hvort hann væri fylgjandi lánveitingum í evrópsku skuldahítina, að því er fram kemur í pistli Peters Costello, eins helsta forystumanns ástralskra íhaldsmanna, í Sydney Morning Herald.
Orðrétt er haft eftir Liqun í lauslegri þýðingu:
„Ef horft er til vandræðanna í Evrópuríkjunum er rót þeirra hreinlega uppsafnaður vandi úr sér gengins velferðarkerfis. Ég tel að vinnumarkaðslöggjöfin sé úrelt. Þau hvetja til dáðleysis og leti fremur en mikillar vinnusemi. Hvatakerfið er í algjöru ólagi.“
Tekið var eftir þessum ummælum forstjórans enda nýtur hann mikillar virðingar sem sérfræðingur í efnahagsmálum, að sögn Costellos.
En Costello er fyrrverandi fjármálaráðherra Ástralíu og þeirrar hyggju að of mikil velferðarþjónusta geti slegið á sjálfsbjargarhvöt einstaklingsins.