Vangaveltur eru um hvort lík einræðisherrans Kim Jong-il verði smurt eða hann grafinn eins og aðrir dauðlegir menn. Ljóst þykir að tugi milljóna króna hið minnsta muni kosta að koma líkinu í það horf að það þoli að vera til sýnis.
Fjallað er um málið á vef breska dagblaðsins Guardian en þar er rifjað upp að faðir Kim Jong-ils, Kim Il-sung, hafi verið smurður af sérfræðingum frá Moskvu. En þar hafa menn reynslu af smurningu, m.a. vegna smurningar á Vladímír Lenín sem hvílir í grafhýsi við Rauða torgið í Moskvu.
Að sögn Guardian kom það fram í fréttaskeytum á sínum tíma að smurningin á Kim Il-sung hafi kostað 300.000 bandaríkjadali, eða hátt á fjórða tug milljóna króna á núverandi gengi. Verður að ætla að sú upphæð hafi hækkað talsvert yrði hún núvirt.
Skýrt með guðlegri forsjón
Rússnesku sérfræðingarnir tóku við líki Kim Il-sung í júlí 1994 og voru hátt í ár að undirbúa það svo hægt yrði að hafa það sýnis. Leynd hvíldi yfir smurningunni og var norður-kóreskri alþýðu sagt að vegna guðlegrar forsjónar hefði líkið varðveist eins vel og raun bar vitni.
Blaðamaður Guardian í Tókýó, Justin McCurry, segir að ef ákveðið verði að smyrja Kim Jong-il verði líkið í góðum höndum því Rússarnir hafi reynslu af smurningum leiðtoga á borð við Jósef Stalín og Ho Chi Minh.