Tveir sænskir blaðamenn voru í dag fundnir sekir í Eþíópíu fyrir að hafa stutt yfirlýst hryðjuverkasamtök og fyrir að koma ólöglega inn í landið.
Svíarnir tveir, Martin Schibbye og Johan Persson, hafa verið í haldi í Addis Abeba frá því í byrjun júlí. Þeir eiga yfir höfði sér 15-25 ára fangelsisrefsingu.
Svíarnir viðurkenndu að hafa komið ólöglega inn í landið en vísuðu því á bug að þeir hefðu nein tengsl við skæruliða í samtökunum ONLF. Dómarar töldu hins vegar ljóst, að Svíarnir hefðu notað blaðamannastarfið sem skálkaskjól fyrir stuðning við samtökin.