Myndir sem Reutersfréttastofan hefur fengið frá KCNA, ríkissjónvarpi Norður-Kóreu, sýna fólk, sem hefur safnast saman við þekktar byggingar í Pyongyang og styttur af leiðtoganum látna.
Margir hágráta og lýsa mikilli sorg í viðtölum við sjónvarpið. Sumir lýsa yfir stuðningi við ríkisarfann, Kom Jong-un, sem nú hefur tekið við völdum af föður sínum.
Í myndum, sem borist hafa frá Norður-Kóreu, sást fólk m.a. hópast saman við bláan rúllustiga í verslunarmiðstöð þar sem Kim Jong-il sást síðast opinberlega.
„Ég get ekki lýst því hvað það myndi gera okkur borgarana hamingjusama ef hann færi í þennan rúllustiga á ný,“ sagði ein kona. „Mér finnst hann enn vera lifandi með breiða brosið sitt. Ég heyri enn rödd hans.“