Samskiptasíðan Facebook.com þarf að útskýra betur fyrir notendum sínum hvað verður um þau gögn sem þeir setja inn á síðuna og færa þeim meiri stjórn á því hvað verður um gögnin. Þetta segir yfirmaður gagnaöryggisstofnunar Írlands. Þar í landi eru höfuðstöðvar Facebook utan Bandaríkjanna til húsa, nánar til tekið í Dublin.
Facebook þarf að semja „einfaldari útskýringar á persónuverndarstefnu sinni [...], auðvelda aðgang þeim útskýringum og gera stefnuna meira áberandi" samkvæmt skýrslu stofnunarinnar, sem gefin hefur verið út eftir þriggja mánaða skoðun á málefnum síðunnar.
Stofnunin kallar eftir því að Facebook auki möguleika notenda þjónustunnar til þess að taka upplýsta ákvörðun sem byggist á upplýsingum sem eru til reiðu.
Jafnframt segir í skýrslunni að Facebook þurfi að reiða fram allar upplýsingar sem það hefur um ákveðinn notanda, innan 40 daga, ef hann óskar eftir því. Eins þarf að bæta upplýsingar um það hvað verður um upplýsingar sem hefur verið eytt eða fjarlægðar af síðum notenda, til dæmis vinarbeiðnir, „pot", hópa sem notandinn er ekki lengur skráður í, merkingar á myndum og skilaboð til annarra notenda.
Hægt er að nálgast skýrslu stofnunarinnar hér.