Bandaríkin hafa lýst yfir áhyggjum vegna tveggja sænskra blaðamanna sem í gær voru fundnir sekir um að hafa aðstoðað hryðjuverkahópa í Eþíópíu. „Dómurinn virðist leggja að jöfnu að fjalla um hryðjuverkahópa og að aðstoða þá,“ sagði talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, Mark Toner.
Enn á eftir að ákvarða refsingu mannanna en saksóknarinn í málinu hefur farið fram á að þeir afpláni 18 ár í fangelsi.
Blaðamaðurinn Martin Schibbye og ljósmyndarinn Johan Persson voru handteknir í Ogaden-héraði í Eþíópíu 1. júlí síðastliðinn og voru þá í slagtogi við uppreisnarmenn úr röðum Þjóðfrelsishers Ogaden, Ogaden National Liberation Front.
Dómsúrskurðurinn hefur verið harðlega gagnrýndur af mannréttindahópum og sænskum stjórnvöldum.
„Við viðurkennum dómsferlið í Eþíópíu og virðum réttmætar áhyggjur eþíópískra yfirvalda af hryðjuverkum og nauðsyn þess að vernda þjóðaröryggi landsins,“ sagði Toner. „Hins vegar, eins og við höfum haldið til haga í viðræðum okkar við eþíópísk stjórnvöld um mannréttindamál, þá er fjölmiðlafrelsi mikilvæg stoð lýðræðislegs þjóðfélags.“