Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu kalla Kim Jong-un, nýjan leiðtoga landsins, nú „yfirburðaleiðtogann". Ekkert bendir til annars en að valdaskiptin í landinu fari friðsamlega fram og engar vísbendingar eru um að her landsins sé í sérstakri viðbragðsstöðu.
Dagblaðið Rodong Sinmun, helsta dagblað Norður-Kóreu, hvatti í dag landsmenn til að fylkja sér á bak „hinn mikla félaga Kim Jong-un og styðja forustu hans af trúmennsku." Sagði blaðið að Kim væri „yfirburðaleiðtogi flokks okkar, hersins og þjóðarinnar og mikilhæfur arftaki."
Kim er 27 eða 28 ára gamall og reynslulaus.
Fjölmiðlar landsins segja nú, að þegar Kim Jong-il, faðir Kims Jong-uns, lést á laugardag hafi náttúran brugðist við með ýmsum hætti. Sést hafi dularfullur bjarmi á helgum fjöllum, íshella á stöðuvatni hafi brostið með miklum drunum og trana hafi flogið hringi í kringum styttu af Kim Il-sung, föður Kims Jong-ils og stofnanda landsins. Hún hafi síðan sest á trjágrein og drúpt höfði í sorg.
Ekkert lát hefur verið á háværum og opinberum harmi íbúa í Norður-Kóreu. Í morgun gekk gríðarlegur fjöldi fólks fram hjá kistu Kims sem liggur undir gleri á viðhafnarbörum í Kumsusan minningarhöllinni í Pyongyang.