„Mikilvægi Grænlands fyrir Evrópusambandið með tilliti til hráefnis verður ekki ofmetið,“ er haft eftir Antonio Tajani, yfirmanni iðnaðarmála í framkvæmdastjórn ESB, á fréttavefnum PublicServiceEurope.com. Fram kom ennfremur í máli Tajanis að Grænlandi byggi yfir miklu magni auðlinda og auk þess væri landfræðileg lega landsins mjög mikilvæg.
ESB á nú í viðræður við grænlensku heimastjórnina um að sambandið veiti Grænlandi aukna félagslega og efnahagslega aðstoð. Fram kemur í fréttinni að á móti hafi ESB áhuga á að fá aðgang að auðlindum Grænlendinga. Rifjað er upp að Grænland hafi á níunda áratug síðustu aldar yfirgefið forvera ESB einkum vegna sjávarútvegshagsmuna landsins.
Fram kemur í fréttinni að ESB sé mjög í mun að tryggja sér aðgang að grænlenskum auðlindum, eins og olíu og verðmætum málmum í jörðu, þar sem sambandið óttist að aðgengi þess að hráefni annars staðar í heiminum kunni að dragast saman samhliða vaxandi tilhneigingu að koma á verndartollum.
Ekki á leið í Evrópusambandið
Haft er eftir Minninnquaq Kleist, skrifstofustjóra hjá grænlenska utanríkisráðuneytinu, að Grænlendingar fari sér hægt í samningum við ESB. Þeir hafi þegar samning um fiskveiðar og vonist til þess að ná samningum um samstarf í fræðslumálum í vor. Síðan gætu samningaviðræður á fleiri sviðum tekið við.
Kleist leggur áherslu á það í fréttinni að allt tal um að ESB fái aðgang að grænlenskum auðlindum séu enn sem komið er aðeins vangaveltur. „Við erum að tala um samstarfssamninga við ESB. Það þýðir ekki að við viljum ganga í sambandið,“ leggur hann áherslu á við blaðamanninn.
„Ef við innleiddum alla löggjöf ESB myndum við þurfa 56 þúsund manns einungis til þess að stjórna 56 þúsund manns,“ segir Kleist að lokum og vísar þar til íbúafjölda Grænlands. Hann bætir við að ein ástæða þess að Grænlendingar hafi yfirgefið forvera ESB á sínum tíma hafi verið andúð á skriffinnsku.