Þýski herinn tekur ábyrgð á eldflaugunum

Flutningaskipið Thor Liberty í höfninni í Kotka.
Flutningaskipið Thor Liberty í höfninni í Kotka. Reuters

Finnsk tollayfirvöld fengu engin nauðsynleg gögn frá Þýskalandi, svo að flytja mætti 69 Patriot-eldflaugar um yfirráðasvæði þeirra. Þjóðverjar halda því engu að síður fram að þau hafi sent öll nauðsynleg gögn.

Patriot-flaugar eru notaðar til loftvarna og eru framleiddar af bandaríska fyrirtækinu Raytheon. Þær uppgötvuðust á miðvikudaginn um borð í skipi í höfninni í Kotka í Finnlandi. Skipið var skráð í Bretlandi en var á leið til Kína eftir viðkomu í Finnlandi, nánar til tekið til Sjanghæ, að sögn finnsku lögreglunnar.

Tollstjórn þar í landi rannsakar málið sem tilfelli um ólöglega vopnasölu. Tveir Úkraínumenn, skipstjórinn og fyrsti stýrimaður, hafa verið handteknir.

„Umsóknir (um flutningsleyfi) eru trúnaðarmál, en við höfum sagt að enginn hefur sótt um slíkt leyfi," segir Sanna Poutiainen hjá varnarmálaráðuneyti Finnlands. Hún segir það á ábyrgð þess sem stendur fyrir sendingunni, eða þess sem á eldflaugarnar, að sækja um leyfið.

Talsmaður þýska varnarmálaráðuneytisins sagði í gær að eldflaugarnar væru sendar á vegum þýska hersins og væru ætlaðar  Suður-Kóreumönnum, en ekki Kínverjum. Hann sagði söluna löglega og byggjast á samningi milli ríkisstjórna beggja landa.

Liu Weimin, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, neitaði því alfarið í gær að sendingin tengdist Kínverjum neitt. „Ég sé ekki að flutningur þessa skips á eldflaugunum hafi neitt með Kína að gera," sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert