Bandarískur unglingsstrákur setti um helgina nýtt met í fjallaklifri þegar hann varð yngsti einstaklingurinn til þess að klífa hæstu tinda allra sjö heimsálfanna. Hann eyddi jólahelginni í það að klifra upp Vinsonfjall á Suðurskautslandinu. Athygli vekur að hann er einungis 15 ára gamall.
Strákurinn, sem heitir Jordan Romero, hefur áður sett svipuð met en hann varð í fyrra yngsti maður til þess að klífa hæsta tind Everestfjalls, 13 ára að aldri.
Romero kom niður af Vinsonfjalli í dag eftir að hafa náð að klífa hæsta tind fjallsins. Með honum í för voru faðir hans og stjúpmóðir.
Með þessu afreki sínu sló Romero met hins 16 ára George Atkinson, frá Bretlandi, en Atkinson lauk við að klífa alla sjö tindana í maí síðastliðnum.
Romero hefur lengi verið hugfanginn af fjallaklifri. Þannig varð hann yngsti maður til þess að klífa Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, þegar hann var aðeins 10 ára gamall.