Ríkissjónvarpið í Norður-Kóreu birti í dag myndir af Jang Song-thaek, bróður Kim Jong-Il heitins, föðurbróður núverandi leiðtoga landsins, í fullum herklæðum með merki hershöfðingja. Þetta er í fyrsta sinn sem hann birtist í sjónvarpi í herklæðum og þykir það gefa til kynna aukin völd hans í landinu.
Herinn í Norður-Kóreu hefur svarið Kim Jong-un, nýjum leiðtoga landsins, hollustu sína eftir fráfall föður hans. Kim var hylltur í ríkissjónvarpinu sem „æðsti leiðtogi“ hersins, sem er meðal fjölmennustu herja heims, 1,1 milljón hermanna. Svo virðist hinsvegar sem Jang Song-thaek hafi einnig tryggt sér lykilhlutverk innan hersins við valdaskiptin í landinu.
Sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu telja sumir að valdaskipanin í kommúnistaríkinu muni nú breytast frá því að vera alræði eins manns, líkt og talið er að hafi verið tilfellið í tíð Kim Jong-il. Valdið muni nú dreifast á fleiri hendur, þar á meðal æðstu stjórnenda hersins og föðurbróðurins Jangs.