Lögreglumenn í Afganistan björguðu í dag 15 ára stúlku sem hafði verið lokuð inni á klósetti í fimm mánuði. Tengdafjölskylda hennar hafði reynt að þvinga hana til að stunda vændi.
Ástand stúlkunnar var skelfilegt. Hún hafði verið barin, neglur á fingrum annarrar handar hennar höfðu verið fjarlægðar og hún var handleggsbrotin, að því er lögreglan segir. Þrjár konur, m.a. tengdamóðir hennar, voru handteknar. Eiginmanns hennar er hins vegar leitað, en hann kvæntist henni fyrir sjö mánuðum.
Margar konur í Afganistan hafa í mörg ár mátt þola ofbeldi og kúgun. Íhlutun hersveita Nató og mikil fjárhagsaðstoð Vesturlanda hafa ekki náð að breyta þessu ástandi.