Breska ríkisstjórnin hefur nú til skoðunar áætlanir um að koma á höftum á inn- og útflæði gjaldeyris frá Bretlandi í því skyni að standa vörð um breskt efnahagslíf ef til þess kemur að evrusvæðið liðist í sundur samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.
Fram kemur að þessi undirbúningur sé aðeins hugsaður sem viðbrögð ef allt fer á versta veg og komið verði á hliðstæðum gjaldeyrishöftum annars staðar í Evrópu með það að markmiði að draga út neikvæðum efnahagslegum afleiðingum þess að evrusvæðið liðist í sundur og evruríki taki upp sína fyrri gjaldmiðla á ný.
Breskir embættismenn óttast að ef eitt ríki yfirgefur evrusvæðið muni fjárfestar flytja fjármagn sitt bæði frá því ríki og öðrum evruríkjum til landa sem teldust öruggari. Fjármagnsflæði gæti þá leitað í vaxandi mæli meðal annars til Bretlands og keyrt gengi breska pundsins upp úr öllu valdi sem aftur myndi hafa neikvæð áhrif á áform breskra stjórnvalda til þess að koma á stöðugleika í efnahagslífinu byggðum á auknum útflutningi.
Vísað er til þess í fréttinni að fyrr á þessu ári hafi stjórnvöld í Sviss neyðst til þess að binda gengi svissneska frankans við gengi evrunnar til þess að stemma stigu við flæði fjármagns til landsins vegna vaxandi ótta vegna stöðu efnahagsmála á evrusvæðinu.
Hafin var vinna af hálfu breskra stjórnvalda við gerð viðbragðsáætlana vegna hugsanlegra endaloka evrusvæðisins í kjölfar þess að stjórnvöld á Spáni vöruðu við því nýverið að hagvöxtur í landinu yrði neikvæður á fjórða ársfjórðungi þessa árs.