Raul Castro, forseti Kúbu, hefur náðað 2.991 fanga undanfarna viku. Þeirra á meðal eru sjö pólitískir fangar og hafa nöfn allra fanganna verið birt í málgagni ríkisstjórnarinnar.
Bandarísk stjórnvöld hafa lýst yfir vonbrigðum sínum með að Bandaríkjamaðurinn Alan Gross, sem setið hefur í fangelsi á Kúbu undanfarin tvö ár, er ekki í hópi þeirra sem voru náðaðir. Gross var dæmdur fyrir njósnir í þágu Bandaríkjamanna.
Castro segir að við náðunina hafi verið tekið tillit til beiðna sem honum bárust meðal annars frá kaþólsku kirkjunni og frá ýmsum öðrum trúfélögum.
Þetta er stærsti hópur fanga sem náðaður hefur verið á einu bretti í landinu. Árið 1998 voru 299 fangar náðaðir í tilefni af heimsókn Jóhannesar Páls páfa II til landsins.