Kínverska ríkisstjórnin segir að hönnunargalli og hroðvirknisleg vinnubrögð hafi valdið því að háhraðlest skall á aðra lest skammt frá borginni Wenzhou í júlí sl. Lestarvagnar fóru út af sporinu og féllu fram af brú. Alls létust 40 og tæplega 200 slösuðust.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem 54 embættismenn unnu að. Margir hafa beðið eftir niðurstöðunum, að því er segir á vef BBC.
Í kjölfar slyssins sökuðu margir kínversk stjórnvöld um að hugsa fyrst og síðast um stjórnmál og hagnað og láta öryggismál sitja á hakanum.