Sleppa úr einum degi

Fjölskylda á Samóaeyjum.
Fjölskylda á Samóaeyjum.

Þegar íbúar á Samóaeyjum vakna eftir að hafa farið í rúmið á fimmtudagskvöld verður kominn laugardagur. Stjórnvöld á eyjunum hafa ákveðið að sleppa föstudeginum úr til að komast á sama tímabelti og Ástralía og Nýja-Sjáland.

Samóa, sem er í miðju Kyrrahafi, er nú 10 stundum á eftir Íslandi, 5 stundum á eftir New York og næstum heilum degi á eftir Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Íbúar á eyjunum stunda aðallega viðskipti við síðastnefndu löndin og þessi tímamismunur hefur þótt óheppilegur. 

Tuilaepa Sa'ilele Malielegaoi, forsætisráðherra Samóa, segir að í viðskiptum við Ástralíu eða Nýja-Sjáland tapi íbúar tveimur virkum dögum. Þegar það sé föstudagur á Samóa sé laugardagur í Ástralíu og þegar Samóabúar fari í kirkju á sunnudögum sé viðskiptalífið í fullum gangi í Sydney og Brisbane.

Samóa er aðeins um 40 kílómetra frá alþjóðlegu dagalínunni. Verður sú lína nú færð með þeim afleiðingum, að í stað þess að vera 21 stund á eftir Sydney í Ástralíu verður Samóa  þremur stundum á undan.

Bandaríska Samóa, sem er um 160 kílómetra fyrir austan Samóa, mun ekki breyta tímanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert