Niðurskurður, forgangsröðun og meiri kröfur. Þetta var nokkurn veginn inntakið í fyrstu nýársræðu Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur. Hún varaði landsmenn við því að búast við að kreppan væri senn á enda og sagði þeim að búa sig undir aukið atvinnuleysi og endurbætur á opinberri þjónustu.
„Við munum hafa endaskipti á öllu og spyrja hvort við getum gert hlutina á betri hátt. Við munum endurskipuleggja eftirlaunakerfið og neyðarhjálp við innflytjendur. Og við munum einnig endurskoða skattkerfið í þeim tilgangi að fá fleiri út á vinnumarkaðinn og að efla efnahag okkar,“ sagði Thorning-Schmidt.
Hún þykir hafa verið afar beinskeytt í málflutningi sínum:
„Þetta nýja ár verður ekki árið sem við leysum öll vandamál. Við skulum horfast í augu við það. En ef við hjálpumst að, þá gæti þetta orðið árið þegar við snúum þróuninni við.“
„Kynslóð eftir kynslóð höfum við skapað framfarir fyrir almenna borgara. Og við krefjumst þess að það gildi fyrir alla. Þannig hefur Danmörk orðið að þessu stórkostlega landi.“
Thorning-Schmidt ræddi nokkuð jafnréttismál:
„Amma mín fæddist árið 1900. Þegar hún var 15 ára fengu konur og þjónustufólk kosningarétt. Lýðræðið varð þannig eign allra Dana. Mamma mín fæddist árið 1937. Þegar hún var að vaxa úr grasi gekk Danmörk í gegnum stríð.“
„Ég er fædd árið 1966. Þegar ég var að alast upp streymdu konurnar út á vinnumarkaðinn. Til urðu leikskólar, dagheimili og menntunarmöguleikar jukust. Danir fengu nýja möguleika. Fólk af minni kynslóð fæddist ekki til að fylgja fyrirfram ákveðnu lífsmynstri. Við áttum meiri möguleika á að velja fyrir okkur sjálf, en nokkur önnur kynslóð hafði haft á undan okkur.“
„Þegar ég lít á unga fólkið okkar, sé ég kynslóð sem skilur hvernig hægt er að nýta sér alla þessa möguleika, ef þau fá leyfi til þess.“