Gríðarlegt magn af dauðri síld þekur nú strendur við Kværnes í Norður-Noregi. Prófessor við tækniháskólann í Þrándheimi segir líklegast, að ránfiskar hafi rekið síldina upp í fjöru þar sem hún drapst.
Vefur blaðsins VG hefur eftir Ole Kristian Berg líffræðiprófessor að byggst hafi upp sterkur síldarstofn á svæðinu og það hafi laðað æ fleiri ránfiska og hvali þangað. Líklegast sé að síldin hafi verið að flýja undan háhyrningum eða öðrum sjávarspendýrum.
Berg segir ekki líklegt að síldin hafi verið að flýja undan óveðri, slíkt sé afar sjaldgæft.
Talið er að um 20 tonn af síld þeki fjörurnar við Kværnes. Berg segir að það muni ekki hafa nein sérstök umhverfisáhrif þótt síldin rotni í fjörunni.