Vilja að refsiaðgerðir verði hertar

Undanfarna daga hafa Íranar verið við heræfingar við Persaflóa þar …
Undanfarna daga hafa Íranar verið við heræfingar við Persaflóa þar sem hermáttur landsins hefur verið til sýnis. Reuters

Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakklands, segir að frönsk stjórnvöld séu sannfærð um að yfirvöld í Íran séu að framleiða kjarnorkuvopn og því eigi að beita Írana enn harðari refsiaðgerðum.

Juppe hvetur önnur Evrópusambandsríki til að feta í fótspor Bandaríkjanna og frysta eignir íranska seðlabankans. Jafnframt eigi að banna innflutning á olíu frá Íran, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

„Íranar eru að þróa kjarnorkuvopn, ég hef engar efasemdir um það,“ sagði utanríkisráðherrann í samtali við frönsku sjónvarpsstöðina I-Tele.

„Nýjasta skýrsla Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar er skýr hvað það varðar,“ bætti Juppe við.

Stjórnvöld í Íran vísa öllu slíku tali á bug. Í gær neituðu þau að aðgerðir Bandaríkjanna hefðu haft áhrif á stöðu gjaldmiðilsins, sem er í sögulegu lágmarki. Þá hafa þau ávallt neitað ásökunum um að Íran sé að framleiða kjarnorkuvopn.

Stjórnvöld í Teheran segja að kjarnorkuáætlun landsins miði að því að framleiða rafmagn fyrir landsmenn.

Í nóvember sl. greindu Bandaríkin, Kanada og Bretland frá nýjum refsiaðgerðum sem þau hygðust beita Írana. Ákvörðunin kom í kjölfar birtingar nýrrar skýrslu Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Þar kom fram að Íranar hefðu gert tilraunir sem tengdust þróun á kjarnorkuvopni.

Málið lenti aldrei á borði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna því bæði Rússar og Kínverjar voru mótfallnir öllu slíku.

Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakklands.
Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakklands. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert