Banna olíuinnflutning frá Íran

Á hverjum degi flytja tankskip um 17 milljónir olíutunna í …
Á hverjum degi flytja tankskip um 17 milljónir olíutunna í gegnum Hormuz-sund fyrir olíuríki Mið-Austurlanda. Reuters

Ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópusambandsins sammæltust í dag um drög að banni við innflutningi á olíu frá Íran til að þrýsta á þarlend stjórnvöld til að hætta við kjarnorkuáætlun sína. Mikil spenna hefur verið á milli vesturveldanna og Írana undanfarið og hafa Bandaríkjamenn hert viðskiptaþvinganir sínar gegn landinu.

Bandarísk stjórnvöld hafa fagnað ákvörðun evrópsku leiðtoganna. Vesturveldin halda því fram að Íranar séu að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum en þeir þverneita því og segja kjarnorkuáætlunin aðeins hafa friðsamlegan tilgang. Reuters-fréttastofan segir frá þessu.

Olíuverð hækkaði í dag þegar fréttir bárust af ákvörðuninni. Íranar hafa meðal annars hótað því að loka Hormuz-sundi við mynni Persaflóa sem er ein mikilvægasta olíusiglingaleið í heimi ef vesturveldin herða efnahagsþvinganir sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka