Ástralskur karlmaður komst í hann krappan þegar hákarl réðst hann þar sem hann var á brimbretti í sjónum við Avoca-ströndina, um 75 km norður af Sydney í Ástralíu. Maðurinn, sem er 28 ára, er sagður vera á batavegi eftir árásina.
Sjónarvottar segja að hákarlinn hafi bitið manninn í annan handlegginn.
„Þegar ég kom á ströndina sá ég konu öskra á annan brimbrettakappa og biðja hann að koma í land, því hún hefði séð hákarl. Þá var ég ekki búinn að átta mig á því að hákarl hefði í raun og veru bitið mann á brimbretti. Síðan sá ég tvo eða þrjá menn standa í kringum mann sem lá í sandinum. Þegar ég fór nær sá ég að brimbretti mannsins var atað blóði og blóð í sandinum,“ sagði sjónarvotturinn Jack Gencher í samtali við Reuters.
„Hann sagði við okkur að hákarl hefði komist á brettið og handleggurinn hefði verið ofan á því og hákarlinn hafi náð að bíta stóran bita úr handleggnum,“ segir Adam Harpaz, sem er annar sjónarvottur sem Reuters ræddi við.
Brimbrettakappinn liggur nú á sjúkrahúsi og er líðan hans sögð stöðug. Sjúkraliðar segja að maðurinn hafi verið í sjónum að kvöldi til. Það sé hættulegur tími.
„Það getur verið hættulegt ef menn eru á brimbretti seint á kvöldin, sérstaklega í rökkri. Flestir sem eru á brimbrettum gera sér grein fyrir því að þá eru hákarlar í fæðuleit,“ segir sjúkraliðinn Brad Folitarik.
Þrátt fyrir árásina voru sundmenn mættir á Avoca-ströndina daginn eftir. Fyrir ofan þá er þyrla á sveimi sem fylgist með því hvort hákarlar séu í nánd.