Leiðtogi Vísindakirkjunnar, David Miscavige, er harðlega gagnrýndur í tölvuskeyti trúfélaga síns til um 12.000 félagsmanna í söfnuðinum og er honum meðal annars borið á brýn að hafa sýnt einræðistilburði og hafa lagt ofurkapp á að safna fé í sjóði kirkjunnar.
Það var Debbie Cook sem sendi tölvupóstinn skömmu eftir miðnætti á nýársdag og hefur málið vakið mikla athygli í ljósi þeirrar dulúðar sem hvílir yfir starfsemi safnaðarins.
Cook sakar Miscavige um að hafa horfið frá þeim grunngildum sem L. Ron Hubbard, stofnandi Vísindakirkjunnar, stóð fyrir. En Hubbard er hálfguð í augum safnaðarmeðlima og er ásökunin því mjög alvarleg frá þeirra bæjardyrum séð.
Sagðir safna illa nýttum eignum
Cook segir jafnframt að Miscavige og hópur honum tengdur hafi hamast við að safna fé í sjóði, alls ríflega 120 milljörðum króna, og meðal annars notað það til að kaupa fasteignir á fjölförnum stöðum sem jafnvel séu hálftómar og lítið notaðar af söfnuðinum.
En meðal fasteigna er kirkjubygging við enda aðalgötunnar í Hollywood, skammt frá minnisvarða um Bítlanna og Elvis Presley, og stórhýsi á besta stað í hjarta San Francisco.
Telur Cook að fjáröflunin stríði gegn trúarsetningum Hubbards. En hún var hátt sett hjá aðalstöðvum kirkjunnar í Clearwater á Flórída og nýtur að sögn fjölmiðla mikillar virðingar í söfnuðinum.
Hún stofnaði netfyrirtæki árið 2008 í félagi við eiginmann sinn og er lýst sem dyggum félagsmanni í Vísindakirkjunni.
Cook sögð tilheyra minnihluta
Talsmaður kirkjunnar gerði lítið úr skeytinu og boðskap þess og eru eftirfarandi ummæli höfð eftir honum á vef Independent, sem nafngreinir hann ekki.
„Skoðanir frú Cook endurspegla óupplýsta heimsmynd fárra og fávísra. Þúsundir meðlima Vísindakirkjunnar deila þeim ekki og eru yfir sig ánægðir með 27 nýjar kirkjur okkar og gildi þeirra fyrir samfélögin sem þeir þjóna,“ sagði í yfirlýsingunni í lauslegri þýðingu.
Er tilvísun í kirkjubyggingar væntanlega ætlað að slá á þá gagnrýni Cook að fé sé illa varið.
Trú á geimverur fléttast inn í boðskap Hubbards, stofnanda Vísindakirkjunnar, og er kvikmyndastjarnan Tom Cruise án efa þekktasti meðlimur safnaðarins í dag.