Kínverski herinn er að smíða nýjar eldflaugar sem munu geta valdið manntjóni og skemmdum á bandarískum flugmóðurskipum á hafsvæðunum undan ströndum Kína. Eldflaugasmíðin er sagður liður í að halda bandaríska sjóhernum lengra frá Kína. Smíðin er sögð hluti af nýju vígbúnaðarkapphlaupi.
Það er bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal sem segir frá smíðinni en umræddar eldflaugar eiga að geta farið upp í heiðhvolfið, þann hluta lofthjúpsins sem liggur milli veðrahvolfs og miðhvolfs.
Kemur fram í kínverskum fjölmiðlum að drægni skeytanna sé 2.736 km en þau eru af gerðinni DF-21D. Er gildi þeirra meðal annars sagt felast í því að þótt varnarbúnaður flugmóðurskipanna geti grandað einstökum flaugum sé ekki hægt að varna því að einhver hitti skipin fyrir, sé mörgum á annað borð skotið á loft í einu.
Yfirráðin á enda
Blaðið segir bandaríska sjóherinn hafa drottnað yfir Vestur-Kyrrahafi frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.
Nú sé vígstaðan að breytast og skollið á vígbúnaðarkapphlaup á milli risaveldanna, Bandaríkjanna og Kína.
Til marks um aukinn slagkraft Kína á sjóherinn nú 29 kafbáta sem eru búnir stýriflaugum, borið saman við átta kafbáta árið 2002.