Romney vann með átta atkvæðum

Romney ávarpar kjósendur sína á kosningavökunni.
Romney ávarpar kjósendur sína á kosningavökunni. Reuters

Mitt Romney bar sigurorð af Rick Santorum í forkosningum repúblikana í Iowa með aðeins átta af um 120.000 greiddum atkvæðum. Formaður Repúblikanaflokksins í Iowa, Matt Strawn, skýrði frá þessu fyrir stundu.

Munurinn er sá minnsti í Iowa síðan núverandi kosningafyrirkomulag var tekið þar upp árið 1976, að sögn CBS-sjónvarpsstöðvarinnar.

Alls fékk Romney 30.015 atkvæði en Santorum 30.007 atkvæði og því hvor um sig um fjórðung greiddra atkvæða. Ron Paul varð þriðji með um 21% atkvæða.

Santorum var brattur er hann ávarpaði stuðningsmenn sína og sagði CBS-stöðin yfirbragð hans hafa verið líkt og hann væri að flytja sigurræðu.

Santorum er kaþólikki og trúmaður mikill. Hann er sjö barna faðir og leggur áherslu á íhaldssemi og borgaraleg gildi í samfélagsmálum þar sem fjölskyldan er í forgrunni.

Hann hefur nú byr í seglin fyrir forkosningar repúblikana í New Hampshire 10. janúar nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert