Þúsund börn létust í finnskum fangabúðum

Tuulikki Pekkalainen, stríðssagnfræðingur.
Tuulikki Pekkalainen, stríðssagnfræðingur.

Nærri því þúsund börn létust í fangabúðum í Finnlandi þar sem þeim var haldið vegna grunsemda um tengsl þeirra við hópa sem studdir voru af Sovétríkjunum í borgarastríði landsins árið 1918. Sagnfræðingurinn Tuulikki Pekkalainen sagði frá þessu þegar hann kynnti nýja bók sem hann gefur út á næsta ári um efnið.

„Á þessum tíma var mikið um hatur og tortryggni í Finnlandi og börn voru ásökuð vegna þess sem foreldrar þeirra og ættingjar höfðu gert,“ segir Pekkalainen. Aðeins um fimm hundruð börn féllu í stríðinu að sögn hennar en 952, þar á meðal ungbörn, létust í fangabúðum eftir að stríðinu lauk vegna hræðilegra aðstæðna.

„Börn fæddust jafnvel í fangelsi. Það er til saga um fangelsi þar sem ekkert heitt vatn var til þess að þvo barnið svo að konurnar velgdu vatnið í munninum,“ segir Pekkalainen.

Í stríðinu tókust á rauðliðar, sem voru studdir af Rússum, og hvítliðar, sem Þjóðverjar studdu, um stjórn landsins eftir að það fékk sjálfstæði frá Rússlandi árið 1917. Fyrir bók sína sem kemur út árið 2013 rannsakaði Pekkalainen mál 350 barna sem gögn eru til um í þjóðskjalasafni landsins.

Sumum var sleppt úr haldi en mörg barnanna sem hvítliðar tóku höndum dvöldu langdvölum í fangabúðum. Segir Pekkalainen að upphaflega hafi verið yfir tuttugu fangabúðir fyrir börn sem síðar hafi verið sameinaðar í þrettán stærri búðir.

„Það er ekki á allra vitorði hvað varð um mörg af börnunum á þessum tíma,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka