Líf í tuskunum á túnfiskuppboði

00:00
00:00

Nýtt met var sett á tún­fiskupp­boði á Tsukiji-fisk­markaðnum í Tókýó í morg­un þegar 269 kílóa þung­ur bláugga­tún­fisk­ur seld­ist fyr­ir 56,49 millj­ón­ir jena, jafn­v­irði 90 millj­óna króna.

Ekki hef­ur verið greitt hærra verð fyr­ir einn fisk frá því byrjað var að halda skrár um upp­boðin árið 1999. Gamla metið var sett á síðasta ári, 32,49 millj­ón­ir jena fyr­ir einn fisk.

Kiyos­hi Kimura, sem hreppti tún­fisk­inn, rek­ur vin­sæla sus­hi-veit­ingastaðakeðju í Jap­an, Sus­hi-Zan­mai. 

„Jap­an hef­ur þurft að þola margt á síðasta ári vegna nátt­úru­ham­far­anna,“ sagði Kimura við AP frétta­stof­una. „Jap­an þarf að stand­ast álagið. Ég gerði mitt besta og keypti á end­an­um dýr­asta fisk­inn.“  

Áætlað er að hægt sé að fá 10 þúsund sus­hi-skammta úr fisk­in­um. Þegar var byrjað að selja sus­hi-skammta úr fisk­in­um á Sus­hi-Zan­mai veit­ingastað á Tsukiji-markaðnum fyr­ir 418 jen, jafn­v­irði 700 króna hvern. Miðað við kaup­verðið þyrfti hver skammt­ur úr fisk­in­um hins veg­ar að kosta jafn­v­irði um 8 þúsund króna.

Mik­il eft­ir­vænt­ing rík­ir jafn­an á fyrsta tún­fiskupp­boði árs­ins á Tsukiji-markaðnum og það er talið gæfu­merki að hreppa fyrsta fisk­inn sem boðinn er upp.

Jap­an­ar neyta um 80% af öll­um bláugga­tún­fiski, sem veiðist í Atlants­hafi og Kyrra­hafi en hann er mjög eft­ir­sótt vara þar í landi. Vax­andi alþjóðleg­ur þrýst­ing­ur er hins veg­ar á að mjög verði dregið úr veiðum á þess­um fiski eða þær jafn­vel bannaðar vegna þess að stofn­inn á und­ir högg að sækja.  

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert