Neita að greiða kolefnisgjald

ESB hefur hafið nýja skattlagningu á flugfélög.
ESB hefur hafið nýja skattlagningu á flugfélög. Reuters

Kínversk flugfélög neita að greiða kolefnisgjald Evrópusambandsins vegna losunar á koldíoxíði í andrúmsloftið. Kerfið var innleitt á nýársdag. Kínversk stjórnvöld eru sögð undirbúa mótaðgerðir.

„Kína mun að sjálfsögðu ekki eiga í samvinnu við Evrópusambandið um hið nýja kolefniskvótakerfi,“ sagði Chai Haibo, einn helsti talsmaður kínverskrar stofnunar sem fer með flugsamgöngur í Kína (CATA).

Kom Chai því jafnframt á framfæri að fyrir hönd allra kínverskra flugfélaga vildi hann lýsa yfir mikilli andstöðu við að Evrópusambandið skuli einhliða þvinga alþjóðleg flugfélög inn í nýja kerfið. Gaf Chai einnig til kynna að kínversk stjórnvöld undirbúi viðbrögð við nýja skattinum en upplýsti þó ekki í hverju þær hugmyndir felast.

Óttast 60 milljarða króna gjaldtöku 2020

Kolefniskvótakerfinu var komið á árið 2005 og er því ætlað að hvetja mengunarvalda til að draga úr losun koldíoxíðs með því að leggja gjald á losunina. Flugið kom inn í kerfið á nýársdag en 3% heildarlosunar kemur frá því.

Kínversk flugfélög óttast að þurfa að greiða 15 milljarða króna vegna gjaldsins í upphafi og að upphæðin muni svo hafa fjórfaldast í 60 milljarða króna á ári þegar árið 2020 gengur í garð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka