Spurði fyrst, skaut svo

Konan skaut innbrotsþjófinn með haglabyssu.
Konan skaut innbrotsþjófinn með haglabyssu.

Ung móðir sem spurði starfsmann neyðarlínu hvort hún mætti skjóta innbrotsþjóf áður en hún skaut hann til bana verður ekki ákærð fyrir verknaðinn. Komst lögregla að þeirri niðurstöðu að hún hefði skotið manninn í sjálfsvörn.

Það var á gamlárskvöld sem hin 18 ára gamla Sarah McKinley hringdi í neyðarlínuna í Oklahoma í Bandaríkjunum og spurði hvort það væri í lagi að skjóta mann sem hefði brotist inn í hjólhýsi hennar. McKinley er móðir þriggja mánaða gamals barns en eiginmaður hennar lést úr krabbameini á jóladag.

„Ég er með tvær byssur í höndunum. Er það í lagi að ég skjóti hann ef hann kemur inn um dyrnar?“ hvíslaði McKinley í símann.

„Þú verður að gera hvað sem þú þarft til þess að verja þig. Ég get ekki sagt þér að þú megir gera þetta en þú verður að gera það sem þú verður að gera til að vernda barnið þitt,“ var svar fulltrúa sýslumannsembættisins í Grady-sýslu. Að því sögðu heyrði fulltrúinn byssuskot í gegnum símann.

Lögreglan fann lík hins 24 ára gamla Justins Martins á sófa konunnar og var hann enn með hníf í hendinni. Hafði McKinley skotið hann til bana með haglabyssu.

„Frumrannsókn okkar á málinu bendir ekki til að hún hafi brotið lögin á nokkurn hátt. Hann hefði átt að hugsa málið áður en hann braust inn á heimili annarrar manneskju,“ segir James Walters aðstoðarsvæðissaksóknari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert